image description

Stjórn IÐUNNAR fundaði samtals sjö sinnum á starfsárinu.  Starfsnefnd stjórnar skipa þau Finnbjörn Hermannsson, Guðrún Birna Jörgensen, Georg Páll Skúlason,  Eyjólfur Bjarnason auk framkvæmdastjóra og fjármálastjóra. Starfsnefnd stjórnar fundaði samtals 6 sinnum.

Engan óraði fyrir þeim áskorunum sem fylgdu árinu sem nú er að líða. Starfsfólk IÐUNNAR stóð frammi fyrir því að þurfa að breyta námsframboði, þjónustu og ráðgjöf á skömmum tíma. Uppbygging síðustu missera á aðstöðu og þekkingu á stafrænni fræðslu og miðlun skipti sköpum og með samstilltu átaki og með því að hugsa í lausnum tókst að bjóða félagsmönnum upp á stóraukið fjar- og vefnám í stað hefðbundins staðnáms.  

Kennslustofur IÐUNNAR búa yfir tækjabúnaði sem gerir okkur kleift að streyma  staðbundinni fræðslu, ráðstefnum eða fundum á gagnvirkan máta. Tekin var ákvörðun um að innheimta ekki námskeiðsgjöld á meðan á samkomubanni stóð.  

Stórir viðburðir og keppnir sem hafa verið fastir liðir í okkar starfi bíða þar til það er óhætt að koma aftur saman.  Framundan eru óráðnir tímar og við þurfum að kappkosta að mæta þeim með þarfir félagsmanna okkar og fyrirtækja efst í huga.  Áfram verður rík áhersla lögð á aukið framboð á fjar- og vefnámi, aukið samstarf sviða og aukna þjónustu til landsbyggðarinnar. En fyrst og fremst er það ávallt markmið okkar að bjóða upp á lausnir sem mæta þörfum iðnaðarins á hverjum tíma.

Helstu verkefni stjórnar á liðnu starfsári voru eftirfarandi:

Ráðstefna um rafræna fræðslu Hluti af stjórn fór til Berlínar á ráðstefnuna/sýninguna OEB og kynnti sér nýjustu strauma og stefnur í rafrænni fræðslu. Markaðsdeild IÐUNNAR var með erindi á ráðstefnunni þar sem fjallað var um leiðir til að þróa rafræna fræðslu með myndskeiðum.


Endurgjaldslaust nám fyrir þá sem misstu atvinnu Stjórn IÐUNNAR samþykkti að félagsmenn sem misst hefðu atvinnu geti sótt námskeið endurgjaldslaust.  

Alþjóðlega vottuð rafbílanámskeið Á bílgreinasviði hefur verið lögð mikil vinna á síðasta starfsári í undirbúning á alþjóðlega vottuðum rafbílanámskeiðum sem verða haldin á vegum IÐUNNAR fræðsluseturs. Námskeiðin verða vottuð af IMI í Bretlandi.  Ferlið sem þarf að fara í gegnum til að verða viðurkenndur fræðsluaðili er strangt og þarf að standast kröfur IMI þegar kemur að  gæðakerfi og stefnu félagsins.  

Umsjón með vinnu starfsgreinaráða Umsjón með vinnu starfsgreinaráðanna flyst til Menntamálastofnunar 31.desember 2020.  

Úrræði fyrir atvinnuleitendur IÐAN og Vinnumálastofnun gera með sér samning er snýr að því að IÐAN mun sjá um úrræði fyrir atvinnuleitendur bæði er varðar raunfærnimat, námskeið og hópa úrræði.

Lokaráðstefna VISKA Lokaráðstefna VISKA Evrópuverkefnisins var haldin í IÐUNNI í febrúar. Niðurstöður VISKA munu styðja við stefnumótun raunfærnimats í Evrópu. Verkefnið gerði grein fyrir áskorunum og tækifærum við framkvæmd raunfærnimats fyrir mismunandi hópa.


Verkefnastjórn Íslandsmóts iðngreina  Stjórn IÐUNNAR samþykkti ósk Verkiðnar um að IÐAN taki að sér verkefnastjórn Íslandsmóts iðngreina.  

Euro Skills frestað  Til stóð að senda fleiri þátttakendur en áður á Euro Skills.  Stjórn Verkiðnar ákvað hins vegar í sumarlok að draga Ísland úr keppni vegna COVID 19 og nokkrum vikum síðar var ákveðið að fresta keppninni um óákveðinn tíma.  

Mannauðsstefna IÐUNNAR  Stjórn IÐUNNAR fór yfir og samþykkti mannauðsstefnu IÐUNNAR.   

Stjórn IÐUNNAR | Markaðs- og kynningarmál