image description

Fyrirtækjaþjónusta

á starfsárinu voru hefðbundnar heimsóknir í fyrirtæki alls 67 sem er það minnsta sem verið hefur í fjölmörg ár.

Fyrirtækjaþjónustan hefur skapað sér ákveðinn sess hjá IÐUNNI. Í henni felst að náms- og starfsráðgjafi og sviðstjóri heimsækja fyrirtæki. Þar er farið yfir námsframboð IÐUNNAR, boðið upp á sérsniðin námskeið, raunfærnimat kynnt og boðið upp á einstaklingsviðtöl fyrir starfsfólk. Eins og á mörgum öðrum sviðum setti Covid-19 svip sinn á þessar heimsóknir á vorönninni 2020 og voru hefðbundnar heimsóknir alls 67 sem er það minnsta sem verið hefur í fjölmörg ár. Teams kynningar voru fyrirhugaðar en í nýjum veruleika, þar sem flest fyrirtæki voru að reyna að fóta sig i ástandinu, varð lítið úr því.  Vonir standa til að úr þessu verði bætt ef að Covid-19 ástandið varir eitthvað lengur.

Ýmist eru það stjórnendur á vinnustað eða smærri hópar starfsmanna sem sitja slíkar kynningar. Þegar um fjölmenn fyrirtæki er að ræða er oft farið í fleiri en eina heimsókn, þá í ólíka deildir eða starfsstöðvar. Í lok kynningar er einstaklingum boðið að skrá sig í viðtal hjá náms- og starfsráðgjafa sem margir nýta sér. Niðurstaða slíkra viðtala getur verið að fara í raunfærnimat í viðkomandi faggrein, skrá sig á námskeið til að efla færni og ýmislegt fleira.

Eins og áður kom fram voru 67 fyrirtæki heimsótt á liðnu starfsári og heildarfjöldi heimsókna er kominn í 1050. Þó skal tekið fram að einhver fyrirtæki hafa verið heimsótt oftar en einu sinni. 

Allar frekari upplýsingar um fyrirtækjaþjónustuna má finna á vef IÐUNNAR.

 

Fræðslustyrkir | Símenntun (tölfræði)