Efst á baugi
Mikill kraftur var lagður í fjölbreytt stafrænt fræðslustarf innan IÐUNNAR á árinu. Vegna Covid-19 var minna um staðnám en áður en rík áhersla lögð á fjarnám og stuðning til félagsmanna.
Til að mæta þörfum félagsmanna voru unnin voru vefnámskeið á flestum sviðum og viðmót á námsvef IÐUNNAR aðlagað að vefnámi og gert aðgengilegra nemendum. Tækjabúnaður IÐUNNAR nýttist vel í upptökur og streymi á fræðsluefni. Nýjungar, samstarf á milli sviða og fjölbreyttara fræðsluframboð var það sem helst einkenndi liðið starfsár.
Veldu grein til að kynna þér hvað einkenndi fræðslustarfið:
Það sem ég tel að standi upp úr á síðasta starfsári er sú vinna sem hefur verið lögð í að koma á alþjóðlegavottuðum rafbílanámskeiðum á laggirnar hér á landi. Námskeiðið er vottað af IMI í Bretlandi og er námsefni frá Lucas Nulle í Þýskalandi (rafbílahermir) notað en samstarf er á milli þessara 2 fyrirtækja. Ferlið sem þarf að fara í gegnum til að verða viðurkenndur fræðsluaðili er nokkuð strangt og þarf að standast kröfur IMI þegar kemur að gæðakerfi og stefnum en það á að tryggja að IÐAN sé fær um að veita fræðslu með þeim gæðum sem IMI krefst af sínum fræðsluaðilum. Mikil fjölgun er á rafbílum hér á landi og ef áætlanir ríkistjórnarinnar eiga fram að ganga varðandi orkuskiptin mun þeim bara fjölga á komandi árum og því mikilvægt að hágæða rafbílanámskeið á mismunandi þrepum sé í boði til að tryggja hæfni stéttarinnar til að takast á við þessa tækniþróun. Með tilkomu samstarfs við IMI opnast líka dyr fyrir frekari samstarfi s.s. vottuðum námskeiðum fyrir loftkælikerfi bifreiða og öðrum námskeiðum tengt bílgreininni. Gert er ráð fyrir því að fyrstu námskeiðin verði keyrð haustið 2020.
Starfsemi bygginga -og mannvirkjasviðs á árinu var með hefðbundnu sniði í formi námskeiðahalds, fyrirtækjaheimsókna og vinnu við þróun nýrra námskeiða auk annarra verkefna.
Í upphafi ársins var boðað til fundar þar sem fram fór stefnumótun fyrir sviðið á grundvelli stefnumótunar IÐUNNAR. Helstu niðurstöður hennar voru að stefnt skuli að því að auka framboð á námskeiðum og annarri þjónustu fyrir iðnaðarmenn og fyrirtæki í byggingariðnaði með aukinni fjölbreytni og auknu netnámi. Einnig að vinna að því að fjölga fólki í iðnnámi í þessum greinum.
Þegar líða tók á veturinn skall á hin margumtalaða pest af völdum kórónuveirunnar og við það lagðist allt námskeiðahald af nema það sem hægt var að kenna í fjarnámi. Bygginga- og mannvirkjasvið tók það til bragðs að bjóða upp á rúmlega 20 námskeið í fjarnámi sem voru þátttakendum að kostnaðarlausu. Mæltist það mjög vel fyrir og var gríðarleg aðsókn að þessum námskeiðum og voru um 700 manns sem fylgdust með þeim.
Haustið hófst með staðbundnum námskeiðum en af sérstökum nýjungum má nefna að við fengum til okkar kennara í bakaraiðn frá Danmörku að kenna desertkökur og eins kom Patrik Fredrisson matreiðslumeistari og sérfræðingur í eftirréttum frá Svíþjóð að kenna eftirrétti. Kennslan fór fram ýmist fram á íslensku og ensku.
Á vorönn var lögð áhersla að framleiða kennsluefni fyrir vefninn. Framleitt var um 8 klst. efni sem tengist námi barþjóna. Eins voru gerð stuttir fræðslumolar um bjórgerð, um íslenskar kryddjurtir og nýtingu þeirra í matargerð. Hlaðvarpsþættir voru teknir upp um matasóun og eins nýtingu þörunga í matargerð og fl. Áframhaldandi vinnsla á kennsluefni fyrir vefinn er í gangi. Námsbraut í vínfræði var skipulögð með blönduðu kennsluformi í huga þ.e.a.s. hluti af kennslunni fer fram á vefnum samhliða átta staðbundnum lotum um vínsmakk. Námsbrautinni lýkur með námsmati. Barþjónanámið verður einnig skipulagt í blönduðu kennsluformi.
Matvæla- og veitingasvið tekur þátt í Erasmus+ verkefninu Food for Thought. Markmið verkefnisins var m.a. að kanna hvort fjölbreyttari neysla almennings kalli á breyttar áherslur í kennslu og þjálfun nema og alls starfsfólks í matvæla- og veitingagreinum. Eftir nánari greiningu á viðhorfum fagaðila í fimm þátttökulöndum var niðurstaðan sú að hanna vefnám og prufukenna samtals sex kennslupakka sem tengist sjálfbærni á veitingastöðum á þremur tungumálum s.s íslensku, ensku og frönsku. Matvælasvið stóð síðan fyrir málþingi um verkefnið í Hótel- og matvælaskólanum dagana 4-5 febrúar sl. Verkefninu lýkur í desember 2020.
Matvæla- og veitingasvið tók þátt í að leysa stöðu nema í matreiðslu og framreiðslu sem misstu námssamning í kjölfar lokunar á veitingastöðum með Hótel- og matvælaskólanum.
Verkefnið um raunfærnimat á móti störfum barþjóna lauk á árinu. Sviðið tók þátt í sýningunni Stóreldhúsið í Laugardalshöllinni dagana 30 október til 1 nóvember. Sviðið sinnti þjónustu við starfsgreinaráð matvæla- og veitingagreina. Sviðið hélt Íslandsmót matreiðslu- og framreiðslunema nóvember og tók þátt í að undirbúa keppni nemanna fyrir Norrænu nemakeppnina sem átti að fara fram í Osló í apríl sl. Ekkert varð að þeirri keppni í apríl vegna heimsfaraldursins.
Haustið 2019 var með nokkuð hefðbundnu sniði á Málm -og véltæknisviði. Aukning var í fyrirtækja kennslu og ber þar helst að nefna samkomulag við Marel um einkakennslu TIG suðumanna. Fimmtíu sóttu einkakennsluna. Ívið færri sóttu hin hefðbundnu námskeið.
Vorönnin 2020 var séstök eins og flestir vita. Covid -19 setti strik hefðbundið námskeiðshald. Þá var veturinn erfiður með slæmum veðrum og rafmagnsleysi um allt land. Mikið var rætt um vara -og neyðarafl. Smærri sveitafélög og sveitabæir voru rafmagnslaus í um viku tíma. Þá virtist sem menn vissu ekki almennilega hvernig ætti að standa að vali á búnaði og því var leitað til sviðsins um leiðbeiningar. Sviðsstjóri ritaði grein sem birt var að heimasíðu IÐUNNAR og í Bændablaðinu um hvernig ætti að standa að þessu.
Fræðsluframboðið tók breytingum vegna COVID-19. Á sviðinu var boðið upp á þrjú ókeypis námskeið í AutoCad, Inventor og Inventor HSM.Teknir voru upp fræðslumolar um þrjú sérhæfð atriði í AutoCad. Þá hélt sviðsstjóri námskeið fyrir Landsvirkjun um olíur, olíurannsóknir og efnisinnihald í TEAMS. Fagstjóri málmsuðu fór í endurritun á námskeiðum í efnisfræði málma auk áls og álsuðu. Þá voru teknir upp þrír fræðslumolar um málmsuðu til birtingar á heimasíðu IÐUNNAR.
Könnun var send út til félagsmanna á málm -og véltæknisviði, þar sem spurt var um framtíðina og hvar sviðið ætti að bera niður í fræðslu og miðlun. Helstu niðurstöður voru að auka framboð á námi tengt iðntölvum, skynjurum og rafmagni.
Hápunktur ársins í starfi sviðsins að vanda var Dagur prents og miðlunar sem haldinn var í sjötta sinn í samvinnu við GRAFÍU og SI. Hann var haldinn þann 17. janúar 2020. Eins og áður var blandað saman fræðslu og skemmtun í hæfilegu magni. Fyrirlestrar voru þétt setnir og fjöldi gesta var áætlaður um 250 manns. Að lokinni fræðsludagskrá var Ari Eldjárn með uppistand og boðið var upp á léttar veitingar og tónlist.
Á fyrstu mánuðum ársins 2020 var sérstök áhersla lögð á stuðning til félagsmanna vegna samdráttar í prentiðnaði. Efnt var til hádegisverðarfundar þar sem farið var yfir stöðuna. Jóhann Ingi Gunnarsson sálfræðingur ræddi þar um hvatningu og seiglu á óvissutímum og námsráðgjafi IÐUNNAR var á staðnum og gaf góð ráð.
Haldin voru staðnámskeið, vefráðstefnur og fræðslufundir á árinu. Bæði í Reykjavík og á Akureyri. Nokkrir þekktir fyrirlesarar fræddu félagsmenn á árinu.
Lex Bergers hélt stutt námskeið um sölu á prentverki og ræddi sérstaklega um hvernig má beita virkri hlustun. Þá héldu Tony Harmer, Julieanne Kost og Mike Russell, sérfræðingar hjá ADOBE vefnámskeið í Illustrator, ljósmyndatækni og Premiere Pro.
Þróun og framkvæmd rafrænna námskeiða tók kipp veturinn 2020 og nú eru í upptökum vefnámskeið í Indesign, Photoshop, umbúðahönnun. En líka námskeið sem verður boðið upp á þvert á sviðin í nýsköpun og sjálfbærni.
Námsframboð breyttist töluvert vegna Covid-19. Mikil áhersla var lögð á nám á vefnum og þá var boðið upp á ýmsar nýjungar á heimasíðu IÐUNNAR, bæði fróðleik sem gagnast félagsmönnum og dægrastyttingu. Menntun sem félagsmenn afla sér sem gagnast þeim í starfi er styrkt af sviðinu og nýttu margir félagsmenn sér það á árinu. Vegna Covid-19 gátu félagsmenn sótt námskeið sér að kostnaðarlausu um nokkurra mánaða skeið.
Erlendir viðburðir og samstarf
Sigurður Ármannsson sem kennir á prenttæknisviði fór á Adobe Max ráðstefnuna sem haldin er árlega í októbermánuði og miðlaði reynslu sinni af nýjungum til sviðsins.
Frá febrúar 2020 lá erlent samstarf niðri. Til stóð að taka þátt í ráðstefnu EGIN í Lyon Frakklandi og DRUPA í Dusseldorf, Þýskalandi. Báðir viðburðir féllu niður vegna Covid-19. Við hittumst aftur í raunheimum þegar það er óhætt og ég hlakka til. Framundan er könnun á fræðsluþörf í prent og miðlunargeiranum og ég hvet félagsmenn til að taka virkan þátt í að móta námsframboð okkar.
Náms- og starfsráðgjafar IÐUNNAR voru fjórir á starfsárinu og hafa þeir sinnt raunfærnimati og náms- og starfsráðgjöf en að auki tekið þátt í verkefninu Fræðslustjóri að láni og farið í fyrirtækjaheimsóknir. Jafnframt er náms- og starfsráðgjöfin virkur þátttakandi í ýmsum Evrópuverkefnum. Þetta var efst á baugi í náms- og starfsráðgjöf IÐUNNAR.