Náms- og starfsráðgjöf
Starfsfólki í iðn- og verkgreinum býðst náms- og starfsráðgjöf hjá IÐUNNI til að skoða möguleika sína í námi og starfsþróun. Markmið ráðgjafarinnar er að stuðla að auknum árangri í námi og starfi og er ráðgjöfin gjaldfrjáls.
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins gerir samning við IÐUNA ár hvert en í honum felst að bjóða fólki á vinnumarkaði með litla grunnmenntun, náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimat.
Náms- og starfsráðgjafar IÐUNNAR voru fjórir á starfsárinu og hafa þeir sinnt raunfærnimati og náms- og starfsráðgjöf en að auki tekið þátt í verkefninu Fræðslustjóri að láni og farið í fyrirtækjaheimsóknir. Jafnframt er náms- og starfsráðgjöfin virkur þátttakandi í ýmsum Evrópuverkefnum. Nýlokið er 3ja ára vinnu við VISKA KA3, Visible Skills of Adults og var lokaráðstefnan í því verkefni haldin í Brussel í febrúar 2020. Nú eru í gangi tvö önnur þróunarverkefni MOBINNOV KA2 „Exchange of good practice“, sem er samstarfsverkefni til 2ja ára, milli 6 landa þar sem megin tilgangurinn er að efla fræðslu og upplýsingagjöf milli landanna á verkefnum sem eru áhugaverð og gætu ýtt undir frekari starfsmannaskipti milli landanna. Hitt verkefnið er Painting Skills Academy (PSA) sem hefur að markmiði að þróa, efla og fjalla um grunnnám og símenntun í málaraiðn og einnig koma á laggirnar vettvangi fyrir kennslu og þjálfun í málaraiðn í Evrópu. Tækifæri í raunfærnimati eru til skoðunar og mat og viðurkenning á námi og starfsreynslu í Evrópu eru einnig skoðuð. Samstarfsaðilarnir eru alls 24 og koma frá ýmsum áttum en þar má nefna fagfélög, fræðsluaðila, rannsóknaraðila og samtök sem tengjast málaraiðninni. Verkefnið hófst 2019 og er til 3ja ára.
Árangur í starfi
Raunfærnimat er góður kostur fyrir fólk sem hefur reynslu úr atvinnulífinu en stutta formlega skólagöngu. Með því að fara í raunfærnimat gefst einstaklingum tækifæri til að sýna fram á reynslu og færni í starfi og getur matið mögulega stytt nám til sveinsprófs eða starfsréttinda. Inntökuskilyrði í raunfærnimat eru þau að einstaklingur þarf að vera 23 ára eða eldri og hafa a.m.k. þriggja ára starfsreynslu úr viðkomandi grein og er þá miðað við fullt starf.
Á starfsárinu (júlí 2019 - júní 2020) var unnið raunfærnimat í 20 greinum á móti námskrá og í einni starfsgrein á móti hæfnikröfum starfa og er það í annað skipti sem IÐAN vinnur raunfærnimat á móti hæfniskröfum starfs. Var um þróunarverkefni að ræða og var starf barþjóna raunfærnimetið. Raunfærnimatið var þróað eftir hæfnigreiningu á starfinu sem unnin var í samstarfi við sérfræðinga úr atvinnulífinu. Inntökuskilyrði voru þau sömu og eru í raunfærnimati á móti námskrá. Mjög lærdómsríkt var að taka þátt í raunfærnimati á móti hæfnikröfum starfa og mikil vinna fór í undirbúningsferlið.
Vegna Covid-19 þurfti að miklu leyti að færa bæði raunfærnimat og viðtöl ráðgjafa yfir í fjarfundi. Raunfærnimatið hefur reyndar áður farið fram í fjarfundi en boðið hefur verið upp á það fyrir þá sem eru búsettir á landsbyggðinni svo þeir þurfi ekki að ferðast langa leið. Skemmst er frá að segja að það gekk mjög vel að færa öll matsviðtöl yfir í fjarfund, þátttakendur ánægðir að geta haldið áfram ferlinu í raunfærnimati þrátt fyrir að skrifstofu IÐUNNAR hafi verið lokuð. Einnig tóku matsaðilar í raunfærnimati vel í að meta í gegn um fjarfund og fannst það ganga vel. Á vormánuðum fékk IÐAN styrk frá þróunarsjóði til að útbúa ferli raunfærnimatsins í INNU, upplýsingakerfi framhaldsskólanna, og mun raunfærnimatsferlið því færast meira yfir á rafrænt form á næsta starfsári.
Alls fóru 233 einstaklingar í raunfærnimat og var það nokkur fjölgun frá árinu áður. Fjöldi staðinna eininga á árinu var 12.511. Ánægjulegt er að segja frá því að metnar hafa verið tæplega 120.000 einingar hjá IÐUNNI síðan árið 2007. Heildarfjöldi viðtala á starfsárinu var 2.047.
Heildarfjöldi viðtala á starfsárinu var 2.047.
Gott samstarf er við símenntunarmiðstöðvar landsins og er reynt að bjóða raunfærnimat víðsvegar um landið eftir því sem kostur er. Að þessu sinni voru unnin raunfærnimatsverkefni í samvinnu við flestar símenntunarmiðstöðvar á landinu.
Samstarf við Vinnumálastofnun
Samstarf við Vinnumálastofnun hélt áfram á starfsárinu og haldnar voru suðusmiðjur fyrir atvinnuleitendur, þó þær væru færri en áður. Tvær smiðjur voru haldnar á fyrri hluta starfsársins. Ein MIG/MAG smiðja og ein TIG smiðja. Sú nýbreytni var gerð að hafa þessar tvær smiðjur samtengdar og voru sömu þátttakendur á þeim báðum. Markmiðið var að auka enn frekar líkur á að þátttakendur fengju atvinnu í málmiðnaði eftir að hafa lokið tveimur 80 klukkusunda smiðjum. Önnur nýlunda var að auka vægi þekkingar á margvísleg tól og tæki sem notuð eru í málmsmiðjum, með sérstaka áherslu á öryggismál.